Kvenkyns hælisleitendur

Í sumar vann ég að rannsókn undir leiðsögn dr. Unni Dís Skaptadóttur mannfræðings, þessi rannsókn snéri að konum af erlendum uppruna sem búsettar eru á Íslandi. Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði Námsmanna og héldum við fyrirlestur á Þjóðarspeglinum þar sem helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar. Rannsóknin ber heitið Konur af erlendum uppruna frá löndum utan EES á Íslandi.
Meðal viðmælenda voru kvenkyns hælisleitendur, sem hafa í dag fengið stöðu sína viðurkennda sem flóttamenn á Íslandi. Í umræðunni sem hefur verið upp á síðkastið um stöðu hælisleitenda á Íslandi finnst mér vantar raddir kvennanna. Kvenkyns hælisleitendur eru sterkir einstaklingar, þær hafa lagt upp í för sem er ekki aðeins erfið heldur líka ógnvekjandi. Það er engin fullvissa um það hvort ferðin takist eða hvernig endirinn verður. Meðal þess sem kom upp í umræðuna í viðtölunum var ólík staða kvenna og karlmanna á flótta, konurnar ættu erfiðara með að takast á við þær aðstæður sem gætu komið upp á leiðinni, sérstaklega vegna þess að konur ferðast frekar með börn með sér en karlmenn. Einn viðmælandinn í rannsókninni sagði:

Að fara af stað þá er engin fullvissa, það fer enginn kona af stað í þetta með barnið sitt nema það sé ekkert annað sem bíður hennar. Oftast er það bara dauðinn eða verra sem bíður og því er ekkert annað í stöðunni nema leggja af stað og reyna að finna betra umhverfi, gera eitthvað.

Við komuna til landsins er enn þá meiri óvissa, konurnar hafa komið sér úr hættu en þær vita ekki hvað bíður þeirra og barnanna: „Það að fara af stað til lands sem þú þekkir ekkert, veist ekkert hvernig er og þú veist ekki hvort þú sért velkomin“, það versta er fyrir þær að vera sendar aftur.

Það virðist sem svo að móttökukerfið, sem tekur á móti hælisleitendum á Íslandi ýtir undir að þessar konur eigi að vera viðkvæmar. Það virðist vera sem svo að þær megi ekki sýna styrkleika sinn, heldur verði þær að sýna veikleika, aðgerðarleysi og viðkvæmni til þess að fá stöðu sína viðurkennda sem flóttamaður á landinu. Þá hefur kerfið náð að setja þær í einhvern ákveðin fyrir fram mótaðan kassa og hleypir konunum ekki úr honum fyrr en löngu seinna, kannski stundum of seint. Við þurfum að styrkja þær, gefa þeim færi á að vera virkir gerendur í eigin lífi þó svo þær séu hælisleitendur á Íslandi. Sem dæmi um þetta þá sagði önnur konan sem kom til Íslands sem hælisleitandi að fólk talaði ekki beint við hana, það var ávallt talað við ráðgjafana eða fulltrúana sem voru með henni. Samt sem áður eru flest allir vel talandi á ensku og enska er móðurmál konunnar. Einn fagmaðurinn sem rætta var við í tengslum við rannsóknin sagði að kvenkyns hælisleitendur og flóttakonur ættu oft auðveldara með að setjast að í samfélaginu en karlmenn, þær hefðu meiri áhuga eða vilja á að bæta félagstengsl sín í landinu og tækju frekar þátt í sjálfboðaliðaverkefnum og öðrum verkefnum sem væri í boði. Sterkari félagstengsl, styrkir líka sjálfsmyndir kvennanna og eykur tækifæri þeirra á að læra tungumálið.

Það er komin tími til þess að íslenska ríkið fari að setja sér markvissa, skilvirka og gegnsæja stefnu í málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Þegar ákvörðunin var tekin um að taka á móti fleiri flóttamönnum, þá hefði þurft að byrja strax að vinna að bættari áætlun um hvernig ferlið á að vera. Bæði ferlið við móttöku flóttamanna og hælisleitenda. Huffington post birti grein 3. September 2015 um stöðu kvenkyns hælisleitanda í Bandaríkjunum. Þar segir meðal annars:

Bæði IACHR og Flóttamannastofnunin óskað eftir því við Bandaríkin að tryggja sanngjarnari aðferðir fyrir þá sem flýja ofbeldi og hættu. Konur sem hafa lifað ofbeldi og hótanir í sinn garð og barnanna sinna ættu ekki að þurfa að standa frammi fyrir kerfi sem gerir það erfiðara fyrir þæra að óska eftir hæli og athvarfi í komulandinu.....Nú þarf bara að leggja sig fram við að gera hlutina rétt. (http://www.huffingtonpost.com/michelle-bran/women-from-central-americ_b_8456280.html).

Einnig velti ég fyrir mér hvernig Ísland getur bæt sig enn frekar gagnvart konum og börnum á flótta. Samkvæmt nýjustu tölum Flóttamannastofnunnar um komu flóttamanna til Evrópu segir að um 34 % þeirra séu konur og börn. Það er óásættanlegt að svo lítið hlutfall kvenna og barna hafi náð yfir hafið, komist í gegnum þessa hættuför sem ferðalagið býður uppá en á sama tíma er það líka óásættanlegt að konur og börn þurfi að leggja af stað upp í þessa för, ekki er aðeins sjóferðin hætturleg heldur ferðalagið allt. Konur og börn á flótta eru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og misnotkun, einna helst í stórum flóttamannabúðum eða á litlum afskekktum stöðum þar sem eftirlit er nánast ekkert (http://www.unhcr.org/562a3bb16.html).

Ísland getur lagt sig fram um að halda áfram áætlunum sínum að vera þátttakendur í verkefninu Women at risk sem Sameinuðu þjóðirnar halda úti, sem íslenska ríkið varð hluti af árið 2005. Síðasti hópurinn sem vitað er til að hafi komið í gegnum þetta verkefni eru konur sem komu til landsins árið 2012. Sækjum frekar konurnar og börnin heldur en að ýta undir að þau fari af stað uppí þessa hættuför


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband