Konur eiga að hafa val!

Svar við pistli Jakobs Inga Jakobsson Fóstureyðingar, femínismi og mæðrahyggja!

Sæll Jakob Ingi

Ég hef ákveðið að setjast niður og svara pistli þínum sem birtist á Vísir.is fimmtudaginn 17. Desember. Að öllum líkindum er ég ekki sú eina sem svara þér, og vona jafnramt að við séum fleiri sem svörum þér.

Það getur vel verið að fóstureyðingar séu feminískar og það er að mínu mati ekki neikvætt enda er þetta fullkomlega réttur konunnar. Hvers vegna? Því skal ég svara, bæði út frá eigin reynslu sem kona og líka út frá staðreyndum.

Fyrst vil ég nefna að fóstur er fóstur, en ekki barn. Samkvæmt lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975 þá er fóstureyðing læknisaðgerð og fóstureyðing er aðeins leyfð áður en fóstur verður lífvænlegt. Í sömu lögum er mælst til þess að fóstureyðingar séu gerðar fyrir 12. viku, flestar eru gerðar á þeim tíma. Leyfðar eru fóstureyðingar seinna á meðgöngu ef um mjög sérstök tilfelli er að ræða sem eru rökstudd af skýrum og greinilegum læknisfræðilegum ástæðum. Það er aldrei auðveld eða léttvæg ákvörðun kvenna að fara í fóstureyðingu. Þetta er tilfinningarússíbani og engin kona þyrfti að fara í gegnum þessa reynslu en þær eiga samt að hafa val til þess. Vegna þess að við búum í frjálslyndu lýðræðissamfélagi og eigum að fá val.

Fjöldi landa heimila fóstureyðingar á meðan enn eru lönd sem gefa konum ekki þetta frelsi. Helstu ástæðurnar fyrir því að fóstureyðingar eru leyfðar er meðal annars til þess að vernda líkamlega heilsu konunnar, til þess að vernda andlega heilsu konunnar, sökum fjárhagslegrar og/eða félagslegrar stöðu (United Nations, 2013). Í þeim löndum þar sem fóstureyðingar eru ekki leyfðar tíðkast þær samt sem áður (Guðbjörg Edda Hermansdóttir, Inga María Vilhjálmsdóttir og Jóhanna Hjartardóttir, 2003) í aðstæðum sem eru ekki viðunandi og jafnvel hættulegar. Og jafnvel enn minni líkur á að karlmaðurinn sé upplýstur þá. Þegar þú talar um ábyrgðina á kynlífinu, þar eru líka tvær hliðar á peningnum, karlmaðurinn ber líka ábyrgð á að gang úr skugga um að getnaðarvörnin sé að virka. Þú þarft ekki, eða annar karlmaður að lána líkama þinn í níu mánuði með öllu því sem þar fylgir.

Þá kemur þetta persónuega, það er ekki „bara“ að vera óléttur og eignast barn. Það tekur á líkamann að ganga með barn, í líkamanum verða miklar breytingar. Hormónarússíbaninn fer á fullt, margar konur upplifa vanlíðan á meðan á meðgöngunni stendur, bæði andlega og líkamlega. Það á ekki að neyða neina konu til þess að ganga í gegnum meðgöngu því það er ekki sjálfgefið að öllum konum finnist þetta frábært. Auðvitað ætti réttur karlmannsins að vera meiri, jafnrétti fer í báðar áttir. En væri ekki nær þá að skoða sterkari réttarstöðu karlmannsins þegar fóstrið er orðið að barni? Það er ekki karlmannsins að setja líkama konunnar í gislingu ef hún er ekki tilbúin til þess.

Ég hef gengið með þrjú börn, ég elska öll þessi þrjú börn mín. Meðgöngurnar hafa verið mjög erfiðar, andlega hliðin vinnur ekki vel með þessu hormónaflæði sem fer um líkamann. Í hvert skipti sem ég vissi að ég væri ólétt þá kveið mig fyrir næstu mánuðum. Ég átti ekki við líkamleg heilsufarsvandamál að stríða á meðgöngunum en andlega hliðin mín er greinilega ekki gert til þess að ganga með barn. Allar meðgöngurnar voru þaul ræddar, skipulagðar og undirbúnar. Hefði ég orðið ólétt án undirbúnings, án stuðnings eða án aðstoðar, þá er ég ekki viss hvort ég hefði getað farið í gegnum þær vitandi hvernig meðganga fer með mig. En ég get svo sem ekki svarað fyrir það núna.

Ég virði konur eins og Jóhönnu Ýr Jónsdóttir (http://www.visir.is/gaf-dottur-sina-til-aettleidingar--hafa-alltaf-att-gott-samband/article/2015705309971) sem gekk í gegnum meðgönguna og gaf barnið sitt til ættleiðingar, hún er greinilega sterk sál. Ég hugsa það sé ekkert auðveldara að fara í gegnum það ferli frekar en að fara í fóstureyðingu. En það var hennar val, hún fékk tækifæri til þess að setjast niður og taka upplýsta ákvörðun fyrir sig og í þessu tilfelli fyrir barnið. konur verða fá að hafa valið.

Ég hef fylgt vinkonum mínum í gegnum þetta ferli, engin af þeim gerði það af léttúð eða ánægju. Þær fóru allar á fund hjá félagsráðgjafa. Gáfu sér góðan tíma til þess að taka ákvörðunina vegna þess að ákvörðunin fylgir þeim alla ævi. Mér finnst þetta vera í höndum konunnar að upplýsa karlmanninn um aðstæðurnar eða ákvörðunina og mér finnst það sjálfsagt að hann fái að vera með en hann hefur ekki rétt á að neyða hana til að ganga með barn sem hún er ekki andlega, líkamlega eða félagslega tilbúin til.

Ég vil að konur hafi alltaf rétt á því að ráða yfir eigin líkama, hvort sem það eigi að vera einkamál eða ekki þá er það þeim í sjálf val sett að ákveða það. Eins og þú segir, það er ekki karlinn sem þarf að ganga í gegnum þessar 42 +/- vikur og öllu sem því fylgir.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér má greinilega bera fram ýmis mótrök gegn svörum þínum, Karólína, eða málflutningi þínum. Það felur þó, nota bene, ekki í sér, að lýst sé frati á viðleitni þína til að rökstyðja þína afstöðu. Og þótt valið sé að svara hér, er það einmitt vegna þess, að verðugra er að svara stóryrðalausri umræðu heldur en ýmsum þeim upphrópunar- og geðsveiflu-innleggjum sem finna má í umræðunni á þeirri Vísis-vefsíðu sem þú nefndir hér í byrjun.

1) Einn helzti veikleiki þessarar svargreinar þinnar er, að þú tekur ekki til alvarlegrar umræðu, hvað fóstrið, sem hér á í hlut, sé, hvert sé eðli þess -- er það manneskja eða hvað? -- er það líf eður ei? -- hvert er gildi þess eða hvenær fær það eitthvert gildi sem talizt getur til mannréttinda? -- og hvernig upplifir það dauða sinn af hendi læknisins?

Eru þetta spurningar sem einfaldlega ber að sópa burt? Liggur það nokkuð í augum uppi? Eða telst það sjálfljós staðreynd, að fóstrið sé ekkert sem vert sé virðingar eða jafnvel jákvæðrar athugunar? Þetta kann að ver viðhorf sumra hinna ungu nú, en er það þá svo, af því að það fólk hafi fræðzt svo mikið um fósturskeiðið, að það geri þessi ungmenni okkar hæfari til að úrskurða um þessi mál heldur en það fólk sem t.d. ræddi málið fyrir 25-30 árum?

NEI, ástæðan fyrir breyttum skoðunum í þessu efni er ekki meiri fræðsla og upplýsing um fóstrið, miklu fremur vanræksla alvarlegrar umræðu og fræðslu um málið. Breytt viðhorf koma því til af þessu tómarúmi hvað upplýsingar snertir um fósturfræði og síminnkandi umræðu um málið, jafnvel minni áhuga á því, síðustu tvo áratugi, þar til loks nú á allra síðustu misserum, að fámennur hópur femínista hefur haft frumkvæði um að keyra á, að fóstureyðingar verði gerðar alfrjálsar fyrir þær konur, sem þetta vilji, og án þess að þær þurfi að gera minnstu grein fyrir ástæðum umsóknar sinnar (og það heldur þó ekki aftur af þeim að ætlast til, að ríkið borgi allt saman).

Ég vil leiða huga ykkar að því um leið, að fyrir rúmum 27 árum fór fram vönduð skoðanakönnun um þessi mál á vegum Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Afstöðu tóku 650 af 731 aðspurðum. Könnunin leiddi í ljós, að 30,5% vildu, að þáverandi (og núverandi) lagaákvæðum um félagslegar ástæður fóstureyðinga yrði haldið óbreyttum; hins vegar vildu 52,9% þrengja þau ákvæði, og 16,6% vildu hreinlega láta banna þau. (Hér eru aðeins taldir þir, sem afstöðu tóku, áðurnefndir 650.) Þarna töldu því nær 70% manna (69,5%), að þrengja bæri þessa fóstureyðingalöggjöf, sem þá gilti og gildir hér enn.

Ætlar nú einhver að fullyrða hér, að Íslendingar hafi bara verið svona afturhaldssinnaðir eða jafnvel "miðaldalegir" í afstöðu til þessara mála fyrir 27 árum -- eða kannski fáfróðir? En ekki er yngri kynslóðin betur upplýst um málið. Ég held að álitsgjafarnir nú ættu að láta það ógert að telja sig yfir það fólk hafna sem afstöðu tók í málinu um 1987-88. Þá var þetta mál mun meira rætt í blöðum og á almennum vettvangi heldur en nú og fólk alls ekki verr upplýst en nú. Stærilæti ýmissa hinna ungu, sem töluðu á Vísis-vefsíðunni í dag um forneskjuviðhorf o.s.frv., eiga því engan rétt á sér. Það er ekkert sjálfkrafa rétt við það að halda sífellt lengra á þessari braut. Hitt geta aðilar báðum megin frá reynt: að færa skýr og gild rök fyrir máli sínu.

Og ég er varla byrjaður á því enn að leggja til atlögu við hin eiginlegu rök, en vænti þess, að á morgun hafi ég tíma til að rita hér framhald, og þakka á meðan lesturinn.

Jón Valur Jensson, 18.12.2015 kl. 02:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband