Nýtt áramótaheiti fyrir alla

Árið 1915 fengu konur 40 ára og eldri og vinnumenn kosningarétt á Íslandi, árið 2015 hafa allir íslenskir ríkisborgarar yfir 18 ára aldri kosningarétt.

Þetta herrans ár, 2015 sem er að hefjast, er merkis ár því það inniheldur mikilvægan part af sögu lýðræðis okkar Íslendinga. Í ár fögnum við því að fyrir 100 árum fengu konur kosningarétt. Þó voru þessi merku mót Íslandssögunnar og sögu kvenna tekin með hægum skrefum því aðeins konur sem voru eldri en fertugt máttu mæta á kjörstað og nýta sinn rétt. Í dag hafa allar konur með íslenskan ríkisborgararétt, óháð upprunalandi eða staðsetningu, rétt á því að kjósa í þingkosningum. Það er með sanni hægt að segja að konur hafa nýtt rétt sinn með sæmd því samkvæmt opinberum tölum þá virtust konur frekar nýta kosningarétt sinn í síðastliðnum þing­kosn­ing­um en þátt­taka kvenna var 85,8% og karla 84,5%. Þó ekki sé mikill munur á kynjunum þá hefur kvenkynið vinninginn þarna. Ég ólst upp við það af mínu kæru foreldrum að nýta kosningarétt minn, að kynna mér hvað væri í boði. Ekki hafa öll ungmenni fengið sama uppeldi og ég, eða þá að þeim sé einfaldlega sama.

Á sama tíma og ég fagna því að formæður mínar börðust af hörku fyrir réttindum sínum og jafnframt mínum þá er ég hrygg yfir því að unga fólkið í þessu mikla lýðræðislandi okkar nýti ekki rétt sinn. Aðeins helmingur ungmenna landsins nýttu sér kosningarétt sinn í seinustu sveitastjórnarkosningum. Kjörsókn landsins var rétt um 66,5 % í þeim kosningum. Viljum við fyrir alvöru fara í gegnum lífið án þess að leyfa röddum okkar að heyrast? Það að fjölmenna niður á kjörstaði á kosningadegi á ekki að vera kvöð heldur er það hlutverk okkar sem einstaklinga að láta raddir okkar heyrast, svo hugtök einsog lýðræði, samfélag og einstaklingur hverfi ekki í dagsins ös.

Margir setja sér áramótaheit, einsog að lifa heilbrigðari lífsstíl, verja meiri tíma með fjölskyldunni og njóta stundarinnar en hvernig væri að bæta þessu litla skylduhlutverki inn? Ég ætla setja mér þau markmið á kosningaárum að nýta kosningarétt minn, virða þá baráttu sem forfeður mínir heyjuðu til þess að ég gæti lifað við lýðræði og persónufrelsi. Ég ætla segja skoðanir mínar og láta rödd mína heyrast, óháð aldri, kyni, stétt eða stöðu.


Þegjum þakklát

Elskuleg flokkssystir mín kom með eina bestu facebook færslu sem ég hef lesið í langan tíma, en hann var á þá leið að skyndi reddingar og poppulismi væri alsráðandi hér á þessu fagra skeri. Það væri engin sanngirni í samfélaginu og framtíðarsýn og jákvæðni á hverfanda hveli. Hvar erum við stödd?!

Ég velti þessu ennþá frekar fyrir mér eftir að hafa lesið færsluna hennar og komst að þeirri niðurstöðu að starfandi ríkistjórn í dag vill ekki hafa almúgann, fjölskyldu og láglaunafólkið í landinu. Þau vilja okkur burt og hafa ekki skafað af þeim áætlunum, kannski trúum við því einfaldlega ekki. Er hreinsunarstefna í gangi í samfélaginu, þar sem allt „óhagstætt“ er bolað út án orða? fólki er réttur passinn til þess að flytja sig úr landi. Ég furða mig á því að þeir séu ekki ennþá búnir að koma upp kerfi sem aðstoðar fólk við að koma sér héðan í burtu, sem fyrst. Hverjum og einum sé borgað milljón fyrir farseðil aðra leið.

Ætli draumurinn sé fólgin í því að hér muni aðeins búa hátekjufólk, hér verði lúxus samfélag þar sem enginn þarf framfærslu og allir búi við góð kjör, skattapardís ríka fólksins. Hér verður mikill meirihluti landsmanna háskólamenntaðir, það hreinsist út fáktækt og félagsbætur. Draumur Glanna glæps verður að veruleika þar sem allt verður vaðandi í sykri og sjónvörpum, ávextir verður fæða ríka fólksins. Er þetta lausnin þeirra til þess að losna við fátækt og látekju fólk? Er þetta bölsýn eða brjálæði ?

Eigum við ekki öll bara að kaupa okkur sælgæti og sjónvarp og þegja, þakklát..?


4. dagur ársins! - Áramótaskaupið

Á þessum fjórða degi ársins sem er jafnframt sunnudagur settist ég fyrir framan tölvuna mína og tók þá drastísku ákvörðun að stofna nýtt blogg. Eitt af markmiðum mínum fyrir árið 2015 er að sitja ekki á skoðunum mínum.

Það málefni sem situr mest í mér þessa dagana er óhróður um áramótaskaupið. Ég hef afskaplega lítinn skilning á því hvernig fólk geti látið úr sér orð einsog skömm eða peningasóun þegar það er að ræða um vandlætingu sína á áramótaskaupinu. Það verður að viðurkennast að áramótaskaupið í fyrra var sérstaklega gott og erfitt að koma beint á eftir því. Það er samt alltaf þannig að fólk þarf alltaf að rasa út um skaupið. Ég held það sé vegna þess að Íslendingar hafa slegið eignarhendi yfir skaupinu, jú við eigum nú RÚV, eigum við þá ekki allt efnið sem RÚV framleiðir og höfum því sértsakan rétt til að vera dómhörð?

Silja Hauksdóttir stýrði Áramótaskaupi RÚV í ár, hún er ekki að gera þetta í fyrsta skipti, hún sinnti þessu verkefni einnig árið 2008. Höfundar skaupsins voru Edda Björgvinsdóttir, María Reyndal, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Lóa Hjálmtýsdóttir og Rannveig Jónsdóttir og svo Silja sjálf. Í ár var sérstakt kvennaskaup í tilefni þess að liðin eru 30 ár frá því að kvennaskaupið var árið 1984. 

Þetta fannst mér eiga vel við í tilefni þess að í ár er að mínu mati mikið kvennréttinda ár í sögu Íslandi. Skaupið var skemmtilegt, auðvitað voru sumir brandararnir sem höfðuðu ekki til mín og það vantaði móment þarna inn sem gerðust á árinu og hefðu orðið fyndin. Ég er samt sem áður sátt, hrósa þessu fræknu dömum fyrir sitt framlag og hlakka til að ári að sjá jafna skiptingu kynjanna við þetta verk.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband